Ég heiti Sigríður Þorbergsdóttir og stend að baki Stroku. Ég hef starfað sem almennur hjúkrunarfræðingur (B.Sc. hjúkrun frá HÍ 1998), á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum, úti á landi sem og á höfuðborgarsvæðinu. Ég breytti um starfsvettvang 2009 og fór að vinna í Waldorfskólanum Lækjarbotnum við ýmis störf og þar kynntist ég hugmyndafræði mannspekilækninga (anthroposophic medicine) sem eru viðbótarlækningar unnar út frá hugmyndafræði Rudolf Steiner (1861-1925). Viðhorf mannspekinnar bætir sálarlegri sýn við hefðbundna læknisfræði og er sú sýn notuð við greiningu og meðferð hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Ég hóf 3ja ára nám í Emerson College í UK, í grunnnámi mannspekilækninga fyrir hjúkrunarfræðinga og útskrifaðist 2017. Ég er meðlimur í IFAN (International Forum for Anthroposophic Nursing) þar sem hjúkrunarfræðingar um allan heima eiga sæti. Árið 2018 stofnaði ég Stroku, þar sem ég vinn með óhefðbundið nuddform (hrynjandi stroku), með ytri meðferðir, ráðgjöf, námskeið og verslun sem vaxið hefur jafnt og þétt og þar er áherslan lögð á hágæða lífrænar vörur og vörur tengdar mannspeki. Árið 2019 hóf ég nám í Jungebad olíudreifingarböðum sem er meðferð sem þróuð hefur verið innan mannspekilækninga.